Mynd af Seðlabanka Íslands
Seðlabanki Íslands

Saga gjaldmiðils á Íslandi

„Seðlabanki Íslands hefur nú um rúmlega þrjátíu og fimm ára skeið haft á sinni hendi útgáfu alls opinbers gjaldmiðils hér á landi, seðla og myntar, fyrst með sérstökum samningi við Fjármálaráðuneyti árið 1966 og síðan samkvæmt gjaldmiðilslögum sem sett voru 1968. Áður hafði einungis útgáfa seðla verið á höndum bankans, en útgáfa myntar í forsjá ríkissjóðs.“

Svo segir í ávarpsorðum Birgis Ísl. Gunnarssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í tilefni af útgáfu ritsins „Opinber gjaldmiðill á Íslandi – Útgáfa og auðkenni íslenskra seðla og myntar“ sem Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns gaf út í október 2002. Ennfremur segir í ávarpsorðunum:

„Opinber gjaldmiðill á Íslandi á sér meira en tveggja alda sögu, og Seðlabankinn telur sér skylt að sinna henni að nokkru marki. Um langt skeið hafa Seðlabankinn og Þjóðminjasafn Íslands haft með sér samvinnu um að rækja þá sögu með því að halda uppi sérstöku safni er sinni varðveislu innlendrar og erlendrar myntar og sögu íslensks gjaldmiðils. Myntsafninu var komið upp samkvæmt sérstökum samningi stofnananna sem menntamálaráðherra staðfesti í janúar 1985, en samkvæmt honum varðveitir Seðlabankinn safnið og annast rekstur þess. Sýningarsalur safnsins var opnaður 6. desember 1986 og er öllum opinn. Það er einn þáttur í starfsemi safnsins að gefa út fræðsluefni um gjaldmiðilssögu, og birtist hér þriðja smáritið af því tagi í annarri útgáfu. Í því er að finna rækilegri lýsingu á opinberum gjaldmiðli en áður hefur birst, útgáfu hans og auðkennum ásamt þeim ákvæðum sem um hann hafa verið sett. Þess er að vænta að yfirlit af því tagi, sem hér birtist, geti orðið að gagni þeim sem áhuga hafa á þætti gjaldmiðils í íslenskri sögu og eins þeim sem leggja stund á söfnun seðla og myntar.“

Rit þetta er nú aðgengilegt hér á vef Seðlabanka Íslands:

Opinber gjaldmiðill á Íslandi - 2. útg. Október 2002. (Myntrit 3). - Pdf-skjal, 1 MB. Ath.: Á bls. 66-68 í ritinu er nefnd samstæðan „Íslensk mynt árið 2001“. Þar á að standa „Íslensk mynt árið 2000“.


© 2005 Seðlabanki Íslands - Öll réttindi áskilin
Póstfang: Kalkofnsvegi 1, 150 Reykjavik - Netfang: sedlabanki@sedlabanki.is
Sími: 569 9600 - Bréfasími: 569 9605

Prentvæn útgáfa
Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli