22. júlí 1999
Verðbólguspá Seðlabanka Íslands
Seðlabanki Íslands hefur endurmetið verðlagshorfur fyrir þetta ár í ljósi
nýrra upplýsinga um þróun vísitölu neysluverðs og undirliggjandi stærða.
Seðlabankinn spáir nú 3% verðbólgu milli ársmeðaltala þessa og síðasta árs og 4%
hækkun frá ársbyrjun til ársloka. Þetta er umtalsvert meiri verðbólga en spáð
var í apríl sl.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,5% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs
1999, sem svarar til 6,3% verðbólgu á ári. Spá Seðlabankans frá því í apríl
gerði ráð fyrir 1% hækkun, sem samsvarar 4,2% verðbólgu á ársgrundvelli. Þótt
frávikið sé umtalsvert er það þó innan tölfræðilegra skekkjumarka. Ástæður
þessarar vanspár liggja einkum í mikilli hækkun bensínverðs á undanförnum vikum,
áframhaldandi mikilli hækkun á verði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og
sérstakri hækkun iðgjalda bifreiðatrygginga. Auk þess er gengi krónunnar nú
nærri 0,3% lægra en þegar verðbólgu var spáð í apríl sl.
Nú er spáð 3% hækkun neysluverðs milli áranna 1998 og 1999 og 4% hækkun frá
upphafi til loka ársins. Í apríl voru sambærilegar tölur 2,4% og 2,8%.
Ástæður þess að nú er spáð meiri verðbólgu en áður má að mestu leyti rekja til
verðlagsþróunar á fyrrihluta ársins. Verðhækkun húsnæðis hefur verið mun meiri
en áður var reiknað með og sama gildir um verðhækkun bensíns og olíu á erlendum
mörkuðum. Í upphafi árs gerðu alþjóðlegar spár ráð fyrir lækkun á heimsmarkaði,
en raunin hefur orðið töluverð hækkun. Það sama má í raun segja um alþjóðlegar
spár um erlent verðlag almennt.
Í spá Seðlabankans nú er reiknað með sömu forsendum og í apríl sl. varðandi
launaskrið (2%) og framleiðni (2,5%) á þessu ári. Launaskrið á fyrrihluta ársins
er áætlað hafa verið tæp 1,8%, og er þá byggt á hækkun launavísitölu á almennum
markaði umfram mat á kjarasamningum. Í ljósi lítils atvinnuleysis og
margvíslegra vísbendinga um umframeftirspurn á vinnumarkaði telst þetta ekki
mikið. Líklegt er því að launaskrið aukist eitthvað á næstunni. Ný þjóðhagsspá í
júní gefur ekki tilefni til endurskoðunar á forsendu um framleiðni. Reiknað er
með óbreyttu gengi frá því sem nú er. Eins og oft áður er verðbólguspáin háð
töluverðri óvissu. Helstu óvissuþættir eru þróun bensínverðs á erlendum
mörkuðum, áframhald verðhækkana á íbúðarhúsnæði og styrkur árstíðasveiflu í
verðlagi. Vísbendingar eru um að árstíðarsveiflan í vísitölunni sé að breytast
og að verða sterkari en áður. Sé það svo er hugsanlegt að verðlagshækkanir á
seinnihluta ársins verði, að öðrum þáttum óbreyttum, minni en hér er spáð.
Seðlabankinn hefur einnig metið þróun raungengis krónunnar með hliðsjón af
þróun verðlags, gengis, launa og framleiðni. Samkvæmt þessum útreikningum mun
raungengi krónunnar hækka lítið á þessu ári eða um 0,9% á mælikvarða verðlags,
en raungengi mælt á launakvarða verður óbreytt.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans, í síma
569 9600.
Töflur
Nr. 46/1999
22. júlí 1999