Verðbólgumarkmið

Meginmarkmið Seðlabankans er stöðugt verðlag, skilgreint sem hækkun neysluverðs um 2½% á tólf mánuðum.

Þolmörk
Stefnt er að því að verðbólgan verði að jafnaði sem næst verðbólgumarkmiðinu. Víki hún meira en 1½ prósentu í hvora átt ber Seðlabankanum að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.

Leiðir
Helsta tæki Seðlabankans til að ná verðbólgumarkmiðinu eru vextir á sérstökum lánum gegn veði til lánastofnana. Telji bankinn ástæðu til getur hann einnig átt viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri í því augnamiði að hafa áhrif á gengi krónunnar og þar með verðlag.

Önnur markmið
Verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur forgang umfram önnur markmið. Bankanum ber þó að stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda að því marki sem hún brýtur ekki í bága við verðbólgumarkmiðið. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann. Ítarlegri umfjöllun um peningastefnuna er að finna í yfirlitsgrein „Nýr rammi peningastefnunnar“, Peningamál 2001/2, bls. 39-44 og í grein Þórarins G. Péturssonar, „Gengis- eða verðbólgumarkmið við stjórn peningamála?“, Peningamál, 2000/1, bls. 32-40.