Meginmarkmið Seðlabankans er stöðugt verðlag, skilgreint sem hækkun neysluverðs um 2½% á tólf mánuðum.
Þolmörk Stefnt er að því að verðbólgan verði að jafnaði sem næst verðbólgumarkmiðinu. Víki hún meira en 1½ prósentu í hvora átt ber Seðlabankanum að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.
LeiðirHelsta tæki Seðlabankans til að ná verðbólgumarkmiðinu eru vextir á sérstökum lánum gegn veði til lánastofnana. Telji bankinn ástæðu til getur hann einnig átt viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri í því augnamiði að hafa áhrif á gengi krónunnar og þar með verðlag.
Önnur markmiðVerðbólgumarkmið Seðlabankans hefur forgang umfram önnur markmið. Bankanum ber þó að stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda að því marki sem hún brýtur ekki í bága við verðbólgumarkmiðið. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann. Ítarlegri umfjöllun um peningastefnuna er að finna í yfirlitsgrein „Nýr rammi peningastefnunnar“, Peningamál 2001/2, bls. 39-44 og í grein Þórarins G. Péturssonar, „Gengis- eða verðbólgumarkmið við stjórn peningamála?“, Peningamál, 2000/1, bls. 32-40.